Dagur 1
27.júlí 2004
Þann 27 júlí var loksins komið að því, við ofurskvísurnar mættum út á Keflavíkurflugvöll í fylgd hans Leifs míns og var stefnan semsagt tekin á Spán!
Við byrjuðum á því að skoða okkur um í fríhöfninni og versla örlítið.. hleruðum samtöl í kringum okkur og komumst að því hverjir voru á leið á svipaðar slóðir og við og hverjir ekki…
Við fengum ömurleg sæti í flugvélinni, vorum alveg aftast og gátum okkur ekkert hreyft þegar parið fyrir framan okkur tók þá ákvörðun að halla sætunum sínum. Frekar fúlt! Ég trúi sko Adda frænda tæplega héðan af þegar hann segjir manni eitthvað um flugvélar! (nema kannski ef ég lendi í því að hann sé flugmaðurinn *hóst*)
Þegar við komum loksins upp á hótel kom sú frábæra staðreynd í ljós að við fengum íbúð í stað stúdíó íbúðar sem var á pöntuninni okkar… svaka næs!!!
Dagur 2
28. júlí 2004
Vorum komnar á fætur um 9 leitið að staðar tíma þar sem við þurftum að mæta á kynningarfund niður í lobbý ásamt öllum hinum sem voru staðsettir á hótelinu okkar. Komumst að því að þær ferðir sem okkur langaði mest í, ss Gíbraltar & Marakkó, voru ekki á sama tíma og við vorum búnar að áætla í Granada *SNILLD*
Við vorum voðalega duglegar að labba um nánasta umhverfi hótelsins í dag og skoðuðum okkur um. Reyndum okkar besta að læra inn á það sem væri næst okkur. Fyndið hvernig verslunum á strandgötunni er raðað upp… það er liggur við til skiptis, ferðamannabúlla og matsölustaður.
Fundum líka netkaffi í næstu götu og ég náði að senda Leifi SMS af netinu og fékk hann til þess að koma á MSN og spjalla við mig í smá tíma 🙂
Okkur fannst ekkert svo svakalegt verð þarna, vorum á netkaffinu í um klst og borguðum ekki nema 1.50€ sem eru eitthvað um 130 kr ísl.
Um kvöldið ákváðum við að rölta aftur eftir strandgötunni og leita okkur að einhverjum stað til þess að fá okkur að borða á. Það voru bara smá kröfur í gangi hjá prinsessunum!
Fundum einhvern enskan stað til að fá okkur að borða og það var alveg ágætt. Eyddum svo restinni af kvöldinu upp á hótel herbergi drekkandi breezer og Amarula *hehe* og spilandi Rommý. Vorum alveg úrvinda eftir daginn þannig að við nutum þess bara að fara snemma í bælið.
Dagur 3
29.júlí 2004
Röltum á markað sem er í hinum hluta bæjarins. Það var ekkert smá margt á þessum markaði, bæði af fólki og dóti. Ég keypti mér úr með ljósbleikri ól! Svo 2 svona stór strandarhandklæði og svo voða fínan löber(dúk) handa mömmu. Það var alveg rosalega heitt þarna og vorum við alveg að leka niður. Í hvert sinn sem við gengum framhjá svona sælgætissala fengum við alveg klígjuna í hálsinn og langaði sko að hlaupa áfram bara til þess að losna við þessa sykurleðjulykt sem gaus upp í nágrenni við þá.
Við fórum beint upp á herbergi eftir markaðinn til þess að kæla okkur niður. Enda var alveg rosalega heitt í dag (ef ég man rétt þá var þetta heitasti dagurinn í allri ferðinni).
Fórum svo niður í garð og lögðumst þar við sundlaugina í smá tíma. Kynntumst pari með 2 stráka sem var búið að vera þá þarna í 2vikur og átti 1 viku eftir. Þau voru öll orðin eins og litlir kolamolar, þá sérstaklega yngri strákurinn. Ég stór efa að við eigum eftir að verða svona brúnar eftir 2 vikur, við erum ekki svo rosalega viljugar að liggja í sólinni.
Röltum meðfram ströndinni og skoðuðum mannlífið sem er auðvitað allt annað á kvöldin en á daginn. Ég ákvað líka eftir að hafa gengið framhjá trilljón gæjum sem voru að selja hennatatto að ég myndi fá mér svona áður en ég færi heim, bara svona for the hell of it! Sáum líka 2 skopmyndateiknara, annar teiknar bara í svart hvítu hinn er með bæði lit og svarthvítt. Svakalega flott hjá þeim báðum, aldrei að vita nema maður láti gera svona áður en maður fer heim ?
Dagur 4
30.júlí 2004
Fórum og fundum “laugarveginn” sem er svona verslunargata þarna í nágrenni við hótelið. Komumst líka í fyrstu kynni við “nelliku konur” sem búið var að vara okkur við. Sígaunakellur sem reyna að næla í mann nellikum og eru svo jafnvel búnar að ræna mann áður en maður veit af. Náðum sem beturfer að losna við þær.
Iðunn fann sér svakalega flotta bongótrommu, ég er að spá í að fara þangað aftur næstu daga og kaupa eina til þess að gefa Sirrý í afmælisgjöf.
Þegar við komum heim þá ákvað ég að skella mér aðeins niður í laug til þess að kæla mig niður en greyjið Iðunn brann svo í gær að hún var bara uppá herbergi og kældi sig niður þar.
Erum búnar að vera að maka á hana sólarvörn 20 eftir gærdaginn.
Um kvöldið fórum við á Gussabar og spjölluðum við hann um staðina í kring. Hann benti okkur á að mesta “fjörið” væri niðrá smábátahöfninni sem var í ca 20 -30mín göngufæri frá okkar hóteli. Fórum svo niður á strönd og stoppuðum á stað sem heitir Caribbian og fengum okkur kokteila, fengum okkur sitthvora “frozen margarita”, Iðunn var ekki alveg að fíla þann drykk en mér fannst hann ágætur (styður kannski þá kenningu Leifs að ég sé efni í róna, TEQUILA!)
Dagur 5
31.júlí 2004
Fórum aftur á göngugötuna í dag þar sem ég var búin að ákveða að kaupa þessa bongótrommu handa Sirrý, hún getur þá hafist handa við að gera alla alveg brjál á Sigló með bongótrommuslætti & fiðlusargi.
Fann reyndar alveg slatta af dóti, keypti skeiðar handa mömmu (hún er að safna svona túristaskeiðum), korta”veski” handa Leifi og lét grafa í það nafnið hans, og sitthvað fleira.
Fórum á Ítalskan stað og fengum okkur pasta í kvöldmat. Röltum svo yfir til Gussa (aftur) enda er hann í sama húsi og þessi ítalski staður 🙂
Spjölluðum við hann í dágóða stund og fylgdumst með honum blanda Sangríu – alveg á nýjan máta, ég hélt alltaf að það væri aðallega rauðvín í þessum blessaða drykk en neinei hann setti útí allskonar ávaxtalíkjöra og svo martini.
Við röltum svo út í smábátahöfnina og skoðuðum mannlífið þar. Á leiðinni hittum við á mann sem skrifar á skeljar og keyptum við sitthvort menið, Iðunn fann eitt sem leit út eins og “tönn” eða eitthvað þannig og ég fékk mér eitt sem var hjartalaga (dæmigert fyrir mig) létum skrifa nöfnin okkar á þetta, eða Iðunn lét reyndar skrifa iddapidda.
Þvílíkur fjöldi af fólki búið að safnast saman þarna rétt við Smábátahöfnina og virkaði þetta eins og risastórt partý því að fólk var með áfengi og var að blanda drykki áður en það færi inn á staðina, óbeint hægt að segja að stemmarinn hafi verið þarna svona eins og þegar skemmtistaðirnir lokuðu kl 3 hérna heima og allir hittust úti á Lækjargötu. Röltum aðeins á milli staðanna en fórum ekki inn á neinn þeirra.
Dagur 6
1.ágúst 2004
Við ákváðum að eyða deginum í dag algerlega niðrí garði… eða allavegana eins lengi og við næðum að halda okkur þar…
Við lágum bara á grasinu og lásum milli þess sem við hoppuðum út í laug og kældum okkur niður. Ekkert smá þægilegt að hoppa út í þegar manni er orðið aðeins of heitt. Kynntumst eldri hjónum (Lísa & Nonni) sem komu með okkur í vélinni, þeim leist ekkert alltof vel á þennan hita sem búinn var að vera. Ég náði að telja Lísu á að koma með ofaní laug því að það væri rosalega þægilegt að kæla sig þannig. Haha það virkaði hjá mér 🙂
Ég held að kellingin hafi aldrei ætlað að hætta að þakka mér fyrir að benda sér á þetta, hélt reyndar að þetta væri comon sense en svona er það bara!
Fann í dag í fyrsta sinn fyrir virkilegri söknunartilfinningu, það voru pör allstaðar í kringum mig og allir að kyssast og knúsast *piff* hef auðvitað oft saknað hans en samt aldrei eins og í dag. Fyndið, stuttu eftir þetta leit ég á símann minn og viti menn þar var sms frá mínum manni :o)
Við uppskárum báðar annsi rauð nef og kinnar eftir daginn, Iðunn var líka alveg ELDrauð á bakinu. Fengum reyndar báðar alveg svakaleg hlátursköst þegar við sáum skjannahvíta rassa! Enda eina svæðið sem var alveg hulið.
Dagur 7
2. ágúst 2004
GÍBRALTAR
Rútan sótti okkur (og fleiri) á hótelið kl 8 um morguninn. Keyrt var í um 2 tíma að landamærum Spánar & Gíbraltar, lentum í langri biðröð eftir að komast yfir. Fórum í raun yfir 2 landamæri því að fyrst kom spænskur tollari og skoðaði vegabréfin okkar og svo kom Breskur tollari og skoðaði þau aftur.
Héldum beint á rútustöð og var hópnum skipt í 2 minni rútur og fengum við bílstjóra sem heitir Robert og sagðist kauði vera að fara með okkur í heimsókn til ættingja sinna, apanna. Við keyrðum upp ca 300metra af ca 400 sem kletturinn er, efst er víst bara leyfilegt fyrir herinn eða eitthvað þannig skildist mér. Stoppuðum fyrst á stað þar sem möguleiki er á að sjá til Afríku, áttum þ.a.l. að geta séð til 3 landa… Gíbraltar (tilheyrir bretum), Spánar og Afríku. Því miður þá var ekki nægilega gott skyggni þannig að við sáum ekki yfir til Afríku en þess í stað sáum við snák *bjakk*. Næst var ferðinni haldið í dropasteinshelli sem heitir Saint Michael og fengum við að rölta um þá í smá tíma og skoða. Ég hef reyndar farið í svipaða hella í Texas. Það var búið að útbúa þarna svona tónleikahöll því að hljómburðurinn þarna er svakalega flottur. Búið að koma fyrir hátalarakerfi, ljósakerfi og setja fullt af sætum, reyndar bara svona sólstólasætum en það skiptir ekki máli. Þegar við komum þaðan út voru þónokkrir apar mættir og voru að betla mat af túristunum þarna.
Það var reyndar búið að vara okkur við því að vera ekki með neitt lauslegt á okkur, sbr sólgleraugu, derhúfur eða eitthvað matarkyns. Halda fast í myndavélar og svo framvegis því að þessir apar eru víst annsi stríðnir og eiga það til að grípa hvað sem er frá fólki. Reyndar var þetta ekki sá staður sem ætlaður var í apaskoðun þannig að við tókum nokkrar myndir af sætri apamömmu með ungann sinn og annan “ungling” sem hafði náð í banana einhverstaðar og var að narta í hann.
Þvínæst var ferðinni haldið á “apaskoðunarstaðinn” og gat fólk fengið að fá apa upp á öxlina. Ég var með annsi blendnar tilfinningar gagnvart því en sé eiginlega eftir því í dag að hafa ekki fengið einn á öxlina :o)
Þetta var svaka gaman og sáum við slatta af öpum þarna, margir hverjir annsi frekir og ætluðu sér hreinlega að fara inn í rútuna að leita sér að einhverju matarkyns. Sennilegast vegna þess að þeir vissu af því að Robert var alltaf með hnetupoka í bílnum, virkuðu aparnir einna helst sem vinir hans 🙂
Eftir apastoppið fengum við tæpa 2 tíma í frjálsan tíma og máttum við ráfa um miðbæjinn í Gíbraltar að vild og var okkur bent á að nýta tækifærið og versla þar það sem okkur vantaði sbr snyrtivörur, tóbak, vín og raftæki þar sem þetta væri tollfrjálstsvæði og væri því eitthvað ódýrara en annarstaðar. Við Iðunn komumst reyndar að því að það var nú ekki alveg rétt, þar sem Ilmvatnið sem Iðunni langaði svo í var tæpum 1000 isl kr dýrara þar en í fríhöfninni heima!!
Á heimleiðinni var okkur tilkynnt að við þyrftum að ganga í gegnum tollinn og líklegt að þeir myndu taka einhverja í tékk, við vorum minnt á að við mættum bara taka x mikið af tóbaki og x mikið af áfengi… Þegar við vorum komnar að tollhliðinu var þvílíkur fjöldi af fólki sem stoppaði okkur og var að reyna að fá okkur til þess að taka fyrir sig í gegnum tollinn vörur, þá aðallega tóbak.
Við stoppuðum á leiðinni heim í Puerto Banus þar sem ríka og fræga fólkið geymir snekkjurnar sínar (eða ætti maður kannski frekar að segja fljótandi hallir?) ekkert smá stórar Snekkjur sem voru þarna við höfnina. Rosalega flottar margar hverjar, okkar var sagt að m.a. ætti Sean Connery eina þarna, konungurinn í Marakkó ætti nokkrar og einhverjir fleiri. Sáum líka marga alveg svakalega flotta bíla, þar af voru 2 sem báru af! Annar þeirra var eldrauður Ferrari, geðveikt flottur! Hinn var kolsvört Corvetta með svaka hljóðkerfi og rauðum leðursætum. Rosalega flottur!
Við vorum komnar heim á hótel rétt fyrir kl 7 og ákváðum við að hvíla okkur í smá tíma og fara svo yfir á veitingastað sem við vorum búnar að sjá sem heitir “Golden Curry” og var búið að mæla með honum í plúsferðamöppunni. Ég fékk einhvern risadisk fullan af hrísgrjónum og kjúklingi, mjög gott… verst að ég gat ekki klárað nema helminginn af matum! Reyndi að fiska upp allan kjúllann svo að ég fengi nú sem mesta næringu úr þessu öllu saman.
Dagur 8
3. ágúst 2004
Drifum okkur niður um 10 leitið til þess að hitta á fararstjóra fundinn til þess að borga ferðina okkar til Marakkó en fórum svo aftur upp á herbergi og dunduðum okkur við að skrifa á póstkort og í bækurnar okkar um Gíbraltarferðina 🙂
Kíktum svo á netkaffið og fórum svo í verslunarmiðstöð sem heitir Plaza Mayor. Þar eru allskonar “outlet” meðal annars frá Nike. Röltum þar um í smá tíma og fengum okkur svo að borða. Við vorum alveg svakalega klárar og tókum lestina út um allt þennan dag. Fórum frá Plaza Mayor og yfir til Fungerola, ætluðum að fara alla leið inn í miðborgina þar en gáfumst upp held ég 1 stoppustöð fyrr og enduðum í búð sem heitir El Corte Engles eða eitthvað þannig. Þar fundum við helling af fötum sem okkur langaði í!
Eftir verslunarferðina skelltum við okkur í kláf sem er í Benal Madena og fer hann upp á fjall sem heitir Monte Calamorro og er það í 800m hæð yfir sjávarmáli. Þar uppi var hægt að sjá fullt af fuglum. Þvílíka útsýnið úr þessum kláfi! Vá ekkert smá flott!!! Við tókum eftir því þegar við vorum þarna í kláfinum að við vorum staðsettar bara við hliðiná tívolínu þannig að við ákváðum að tékka á verði þar inn og svo skemmtilega vildi til að það var hægt að kaupa miða inn sem var eingöngu inn á svæðið og var hann á ca 500kr ísl ekkert verð 🙂
Við röltum í góða stund um tívolí og skoðuðum okkur um. Settumst niður og fengum okkur að borða. Á meðan við vorum að borða fengum við að sjá flamingódanssýningu, svakalega flott. Frekar fyndið að sjá að ein af dönsurunum var alveg rosalega lík henni Kristínu Örnu. Rosalega mikið af ferðum þarna sem manni langaði svosem alveg að prufa en við vorum með poka og dót með okkur þannig að við slepptum því bara. Kíktum í speglasalinn þar sem það var eina “ferðin” sem var hvorteð er ókeypis!!!
Á morgun er það svo Granada!! Og snillingarnir við gleymdum að nota tækifærið áðan og tékka á rútuferðum frá Malága til Granda *haha* verður bara að koma í ljós á morgun.
Dagur 9
4. ágúst 2004
GRANADA
Við tókum lestina frá Torremolini til Malága og þaðan rútu til Granada, ferðin í heild sinni tók rétt rúma 3 og ½ tíma.
Við vorum búnar að panta okkur herbergi á hóteli í Granada sem heitir Hotel Athenas, fengum þar ágætis herbergi. Fengum amk sér klósett sem fylgdi ekki öllum herbergjunum þarna greinilega því það var eitt frami á gangi 🙂
Þegar við vorum búnar að pústa aðeins ákváðum við að koma okkur af stað og reyna að komast í Alambra hallirnar en þegar við komum þangað var því miður uppselt í hallirnar en við gátum keypt okkur miða í garðana sem við gerðum og gengum þar um í dágóðan tíma sem og svæði sem hægt er að ganga um án þess að borga neitt.
Fórum svo niður í bæ í garð sem Iðunn hélt oft til í á meðan hún bjó þarna. Gengum um garðinn í smá tíma og tókum myndir. Fengum okkur svo að borða á alveg ógurlega amerískum stað sem hét Rock and Ribs eða öfugt, var hann algerlega í anda Hard Rock.
Fundum húsið sem Iðunn bjó í fyrir 5 árum og skoðuðum aðeins hverfið þar í kring. Enduðum gönguferð dagsins á að kíkja í verslun :o)
Fann inn í þessari verslun ALLAR seríurnar af friends og líka CSI á dvd fékk alveg þvílíka verki í veskið mitt þannig að ég var ekkert að láta það eftir mér að tékka á verðinu, eða jú ég leitaði á öllum friendspakkningunum eftir verði en fann ekkert!
Við fórum og fundum okkur eitthvað gott í gogginn þegar líða tók á kvöldið, enduðum á torgi sem er að mig minnir kallað nýja torgið en voða lítið nýtt þar *glott* að vísu þá er þetta víst einn aðal samkomustaður “bóhema” í Granada eða mér skildist það allavegana á Iðunni 🙂
Þegar við vorum langt komnar með matinn okkar þá kom til okkar lítill voða sætur hvutti og var að reyna að betla mat af okkur, ekkert smá sætur, hann kom bara aðeins of seint.
Á meðan við vorum að svipast um eftir álitlegu veitingahúsi fundum við nokkrar verslanir sem við kíktum í… þar á meðal fundum við sitthvort sjalið, mitt er svart með rauðu munstri og Iðunnar er svart með marglitu munstri, einnig fann Iðunn sér langþráða sandala!
Eftir matinn ætluðum við að fara á bar sem Iðunn er búin að sakna alveg ógurlega mikið síðan hún flutti heim. Þessi bar selur eingöngu drykki í formi skota! Þannig að þetta leit annsi vel út, verst að þegar við komum á staðinn var bara allt lok lok og læs! Frekar fúlt!!! Þannig að við settumst bara á lítinn bar í næstu götu og sötruðum hvítvín í smá tíma og gæddum okkur á smáréttum sem voru bornir fram með drykkjunum.
Dagur 10
5.ágúst 2004
GRANADA #2
Þurftum að losa herbergið á hádegi þannig að við lukum því bara af og leigðum okkur skáp undir töskuna svo við þyrftum ekki að dröslast með hana um allt.
Fórum um hellstu verslunargöturnar þarna í grend við hótelið og enduðum við dómkirkjuna. Rosalega falleg bygging en því miður þá er búið að byggja svo nálægt henni að hún fær ekki að njóta sín.
Röltum því næst um arabískahverfið og fundum margt sniðugt þar, keypti reyndar ekkert en hefði getað gert góð kaup á hinum ýmsu pípum *haha*
Tókum rútuna heim frekar snemma svo að við kæmumst á almennilegum tíma heim og yrðum ekki alveg ónýtar fyrir Marakkó ferðina á morgun.
Röltum út stuttu eftir að við komum heim til þess að finna okkur eitthvað í gogginn og enduðum á Caribbian, kokteilastaðnum. Fengum okkur kjúkling á spjóti alveg hreint dásamlegur matur. Fyrsti maturinn sem við erum alveg *namminamm* komum aftur hingað.
Mæli allavegana hiklaust með því að fólk fari á þennan stað því að ekki nóg með það að þar sé góður matur þá eru kokteilarnir þar alger snilld og sá dýrasti er bara á 6€!!!!
Dagur 11
6.ágúst 2004
Marakkó
Vorum mættar niður í andyri hótelsins kl 6 um morguninn. Fólkið var fljótt að tínast niður og var ágætis hópur sem hélt af stað frá Santa Clara, stoppuðum á nokkrum hótelum til þess að ná í hina ferðalangana líka. Keyrðum til hafnarborgarinnar Algeciras og tókum þaðan ferju yfir til spænskuborgarinnar Ceuta sem er í Marakkó. Þar hittum við nýjan fararstjóra sem heitir Larby og sá hann um okkur í Tetuan (borgin sem við skoðuðum í Marakkó). Ferlega hress karakter og klár.
Við keyrðum frá Ceuta yfir til Tetuan sem er elsta borg í Marakkó og hefur hluti af henni haldist nánast óbreyttur í hundruð ára. Fengum akkúrat að ganga í gegnum elsta hlutann.
Áður en við komum að Tetuan var stoppað við þjóðveginn hjá úlfaldabændum og var fólki boðið upp á að fara á úlfaldabak, þónokkuð af fólki var til í það og var mjög gaman að fylgjast með fólkinu.
Þegar við komum inn í Tetuan var haldið beint að þessum elsta hluta borgarinnar þar sem er í raun einn stór götumarkaður. Á markaðnum urðum við vitni að ýmsum atburðum sem margir bjuggust ef til vill ekki við að sjá. M.a. sáu sumir konu velja sér kjúkling hjá slátrara og fygldust með því þegar hann var tekinn, hálshöggvin, fiðurhreinsaður og bútaður niður *bjakk*
Gengum í raun í gegnum nokkur hverfi innan þessa hverfis, meðal annars fórum við í gegnum þennan matarmarkað sem við byrjuðum á, því næst í gegnum svo kallað gyðingahverfi en þar sáum við menn vera að sauma þessa kufla sem fólkið gekk um í. Reyndar sáum við aðallega verið að búa til “brúðarkjóla” sem voru margir hverjir alveg rosalega fallegir. Þegar við vorum komin í gegnum þetta hverfi komum við á torg þar sem var hægt að sjá eina af höllum konungsins og var alveg rosalega mikil gæsla þar í kring. Þaðan héldum við í enn eitt hverfið þar sem voru aðallega skartgripasalar, en eins og Larby sagði þá voru mennirnir í ferðinni einstaklega heppnir því að akkúrat þegar við vorum þarna þá voru þær eiginlega allar lokaðar vegna bænastundar eða eitthvað álíka. Við enduðum gönguna svo á teppamarkaði þar sem var verið að reyna að selja okkur alveg ótrúlega falleg handofin teppi… ég hefði keypt slatta ef ég hefði vitað hvernig fjárhagurinn var hjá mér *haha* mörg alveg rosalega falleg teppi, enda seldu þeir alveg ágætlega.
Eftir teppamarkaðinn héldum við á veitingastað, en um leið og við stigum út af teppamarkaðnum voru götusalar búnir að líma sig á okkur og ætluðu sér sko algerlega að selja okkur eitthvað af vörunum sínum!!! Þeim tókst m.a. að selja Iðunni einhverskonar gítar með 3strengjum. Reyndar ferlega flottan. Þeir gengu með okkur alveg frá teppamarkaðnum og yfir að veitingastaðnum. Og það átti sko að selja okkur eitthvað meira!!! Á veitingastaðnum var borin fram grænmetissúpa og brauð sem rann ljúflega niður í mannskapinn, næsti réttur var “shiskabob” eða nautakjöt á teini sem var alveg hreint sælgæti, svo var komið að aðalréttinum…. hann fór mjög misjafnt niður í fólk. Boðið var upp á kuskus og kjúkling… ég held að það hafi ekki verið neitt rosalega margir sem fannst þessi kjúklingur vera voðalega lystugur eftir að hafa fylgst með slátraranum nokkru fyrr. Í desert fengum við svo einhverja þjóðlega smáköku sem minnti mig einna helst á risastóra spesíu og svo mintute sem var frekar skrítið á bragðið.
Þegar maturinn var búinn fórum við til gamaldags lyfjasala. Ekta svona skottulæknis. Þar sýndi hann okkur allskonar krem, krydd, olíur og fleira. Allt með sérstakar verkanir ef borið er á hér eða þar á líkamanum. Ég keypti eina kryddtegund sem á víst að hjálpa til með hrotur og ætla að gefa honum pabba gamla, hann var líka að selja musk kubba og þar sem ég dýrka musk lykt þá bara varð ég að kaupa svoleiðis líka. Svo náði hann að pranga inn á mig eitthvað krem sem á að vera þvílíkt kraftaverkakrem, það á að virka á frunsur, fílapensla, bólur og bara nefndu það! Og þar sem ég er frunsugemsi þá ákvað ég að smella mér á eina dollu!
Þegar lyfjakynningin var búin skunduðum við aftur niður í rútu, fram hjá matarmarkaðnum og núna var þónokkuð af fólki búið að bætast í hópinn… skrítið að fara og versla í svona *bjakk* allt í flugum og ógeði.
Við vorum keyrð yfir til Ceuta og fengum þar rúman hálftíma í frítíma og eyddu flestir tímanum í að finna sér eitthvað snarl, því miður vorum við þarna á versta tíma því að margar verslanir voru lokaðir vegna Síestunnar.
Á leiðinni heim komumst við að því að sú dagsetning sem við Iðunn höfðum alltaf haldið að væri komudagsetning hingað heim var röng og fór því allt í kássu með þau plön sem voru hjá okkur. Þar sem allan tíman hafði staðið á ferðaáætluninni að ferðin væri frá 27.juli TIL 10 ágúst bjuggumst við nú við því að við kæmum heim þann 10 en nei það var bara gert á einhvern fáránlegan máta hjá ferðaskrifstofunni svona þannig að fólk væri ekki að misskilja *well döh hvað gerðum við ?*
Við hófumst semsagt handa við að reyna að ná í fólkið okkar til þess að m.a. láta selja tónleikamiðana okkar, seinka bílstjóranum okkar um klst og svo framvegis.
Það var rosalega margt sem við sáum í þessari ferð, þessi ímynd sem við höfum af konum í þessum löndum var ekki alveg rétt allavegana ekki í Tetuan, það voru einna helst gömlu konurnar sem gengu um í kuflum og settu slæður fyrir andlit. Reyndar sagði Larby okkur frá því að Marakkó væri farin að verða annsi mikið fyrir áhrifum vestrænnar menningar, unga fólkið væri farið að tileinka sér vestræna siði og klæðaburð. Kuflarnir eru ekki eins mikið notaðir og þeir voru hérna áður fyrr og eru þá einna helst notaðir af eldra fólkinu. Þær konur sem gengu um í kuflum og með slæðu fyrir andlitinu þannig að aðeins sæjist í augun voru eiginlega allar gamlar, margarhverjar mjög gamlar og hoknar… maður þorði eignilega ekki að taka myndir af þeim, enda var Larby búinn að segja okkur að ef við ætluðum að taka myndir af einstaklingi einum og sér þá ættum við að biðja um leyfi frá viðkomandi því að þeir trúa því víst að þeir tapi sálinni ef mynd er tekin af þeim.
Ég verð að viðurkenna að ferðin til Marakkó var ekki alveg eins sjokkerandi og ég átti kannski von á… eða var búin að gera mig reiðubúna fyrir. Kannski tengist það að einhverju leiti að konungurinn var í borginni og því allt frekar “snyrtilegt” og allstaðar flaggað. Svo gæti það líka verið að ég hef komið til Mexíco og þar var allt alveg rosalega skítugt og betlarar út um allt.. viðbjóður!
Dagur 12
7.ágúst 2004
Vá hvað við vorum þreyttar eftir gærdaginn, ég skreið út á netkaffið og hékk þar í smá tíma, talaði við Leif og Ásu á MSN og leitaði uppi möguleika á að selja miðana á Pink.
Við fórum saman niður í garð og lágum þar í 2 til 3 tíma en lítið græddum við á því… eða mér finnst það allavegana.
Fórum svo af stað að leita okkur að einhverju ætilegu… byrjuðum á því að stoppa á Caribbian og fengum okkur smá kokteil, röltum svo áfram í átt að smábátahöfninni og fundum svo þýskan stað þar sem við fengum okkur að borða. Enduðum göngu kvöldsins í smábátahöfninni. Það var allt pakkað af fólki þarna og settumst við á einn svona útibarinn og fengum okkur MJÖG skrítna drykki. Ég man ekki hvað þessi staður heitir en fyrir utan aðal innganginn var stór tunna og uppá henni stóð fyrst mjög fáklæddur herramaður og dansaði eins og óður væri, svo eftir smá stund kom dama þar upp í MJÖG svo stuttum kjól og tók við af honum.
Við kíktum inn á skemmtistað sem heitir Kaleido og var voða flottur. Allt troðið af fólki og allir á fullu að reyna að ná sér í höstl kvöldsins! Þessi staður var ekkert smá flottur, við fundum okkur sæti á neðri hæð staðarins og skoðuðum mannlífið þar til við tókum eftir því að neðsti parturinn af einum veggnum þarna var í raun fiskabúr, risastórt fiskabúr. Rosalega ljótir fiskar í því en hugmyndin alveg svakalega sniðug!
Við enduðum kvöldið í um klst langri biðröð eftir leigubíl, fíluðum okkur alveg eins og við værum komnar heim á klakann og stæðum niðrí Lækjargötu 🙂
Dagur 13
8.ágúst 2004
Meiri letin í okkur í dag… við gerðum í raun ekki neitt!!!
Tja fyrir utan það að liggja niðrí garði og kjafta við m.a. fýlusvipskelluna (sem er reyndar mjög yndæl og viðkunnaleg kona).
Fyndið hvað við erum búnar að búa til nöfn á marga hérna þar sem við höfum kannski spjallað við viðkomandi en aldrei verið formlega kynnt. Ég spurði hana m.a. að því hvað þau hefðu látið fyrir fína fína teppið sem þau voru að skoða í gær og keyptu… þau sögðu mér að þeir hefðu viljað fá 700€ fyrir það en þau enduðu með að labba út með það fyrir 150€ ekki slæmt!!!
Við ákváðum að kíkja á stað í kvöldmat sem við vorum oft búnar að labba framhjá og dást að merki staðarins… kemur ekki svo í ljós að þetta er alveg svakalega fínn staður og hmm án þess að neitt nánar sé út í það farið PJÚRA HOMMAstaður! En maturin alveg svakalega flottur. Við fengum spes dragshow og spes kveðjur frá drollunni “hello girls from Iceland” haha bara fyndið!
Eftir matinn og showið fórum við niður í drykk til hans Gussa, spjölluðum í smá tíma þar við hann og héldum svo yfir á VIKINGbar sem er skandinavískurstaður. Hittum þar alveg svakalegan fjölda af íslendingum, m.a. prump strákana þá Róbert Daða & Atla (þeir komu með í báðar ferðirnar, Gíbraltar & Marakkó), hittum líka parið sem er með okkur á hótelinu þau Ellý & Björgvin. Þau eru rosalega fín og spjölluðum við alveg heilmikið við þau. Kemur ekki í ljós að hann er ekta tölvunörd og á þónokkur lén, ekki nóg með það þá er hann lika kunningi ÓMARS!! Fyndinn lítill heimur!
Kynntumst líka einhverjum gaukum frá Bakkafirði, vorum ekki alveg að fíla þá þar sem þeir voru vægt til orða tekið á SKALLANUM… einn þeirra var að gera vonir sínar annsi háleitar og spurði m.a. að því hvort hann mætti koma með mér uppá hótel… já veistu nei! Flúði þá inn á wc og Iðunn skellti sér í mitt sæti og þar með var ég laus!
Við stungum svo af og kíktum á pöbb sem var þarna í nágrenninum sem heitir Garfields, þar sem ég er svo hrifin af þessum karakter þá bara varð ég að fara þar inn 🙂
þá einna helst til þess að geta sagt að ég hafi fengið mér drykk þar!!! Þaðan var áætlað að halda heim, enda var ég hætt í öllu sterkara en vatni og Iðunn orðin annsi skrautleg *hóst* en henni tókst að draga mig inn á einhvern stað þar sem þar var svo “æðisleg” tónlist… hún dansaði þar alveg heillengi við einhverja gauka á meðan einhver gaukur gerði sitt besta að reyna að fá mig til þess að skilja spænsku.. *haha* good luck!
Á endanum náði ég að draga hana út og héldum við þá heim á leið, báðar all skrautlegar þó vil ég meina að Iðunn hafi verið margfallt verri en ég!
Dagur 14
9. ágúst 2004
Vöknuðum seint og síðar meir.. báðar alveg grútþunnar og asnalegar. Ákváðum að skella okkur til Malága og reyna að gera eitthað úr deginum, hefðum betur sleppt því þar sem okkur leið báðum alveg herfilega! Gengum hring í einni verslun og beint aftur út á lestarstöð!
Ég kláraði að pakka að mestu og ákveða svona nokkurnvegin í hverju ég ætla að vera á morgun, bæði um daginn og í flugvélinni.
Röltum eftir ströndinni í kvöld og fórum inn á stað sem heitir Mamma María og fengum okkur að borða, reyndar ætluðum við að fara á stað sem heitir The Cosy Nook en þeir voru búnir að loka eldhúsinu þegar við komum, þeirra missir!
Eftir matinn gengum við meðfram ströndinni og leituðum af teiknaranum okkar, fundum hann eftir smá rölt og fengum hann til þess að teikna myndir af okkur… ég endaði sem einhver svakaleg sjóbrettagella og Iðunn sem Senjoríta.
Fórum svo beint heim á hótel og kláruðum að pakka niður í stóru töskurnar okkar.
Dagur 15
10. ágúst 2004
Kláruðum að pakka og gengum frá öllu í herberginu okkar skömmu eftir að við vöknuðum, snillingarnir á hótelinu höfðu ákveðið að taka vatnið af á milli 10 og 12 um morguninn þannig að það var ekki séns á að fara á WC eða þvo sér á þeim tíma *fáránlegt*
Vorum voðalega duglegar og skiluðum af okkur herberginu á tilsettum tíma ásamt flestum af hinum íslendingunum sem áttu bókað far heim með okkur. Fengum að setja töskurnar okkar í eitthvað geymsluherbergi sem var ekki einusinni læst og hver sem er gat farið þangað inn og út eftir vild, ekki alveg heillandi en varð víst að vera svo þar sem ég hafði takmarkaðan áhuga á að vera að dröslast um með 2 ferðatöskur allan daginn!!!
Við fórum og fengum okkur að borða á kaffihúsi sem er bara rétt hjá hótelinu og ákváðum svo að spreða í sólarbekki fyrir daginn… lágum svo bara þar og grilluðumst það sem eftir var dagsins… ekketr smá þægilegt að vera á svona bekkjum.
Um 6 leitið fórum við í lobbýið og spurðumst fyrir um þessa blessuðu íbúð sem plúsferðafólkið átti að hafa aðgang að til þess að sturta sig og svona fyrir brottför… þegar við komum upp þá var þetta engin smá íbúð!!! Stór stofa, 2 svefnherbergi og 2 baðherbergi þannig að það var ekkert mál að láta allan þennan hóp fara í sturtu!!! Við skelltum okkur í sturtu en ákváðum samt að skipta ekki yfir í ferðafötin strax því að það var enn svo heitt úti og við ætluðum báðar að vera í síðbuxum og svona á leiðinni heim.
Við vorum búnar að ákveða hvert við ætluðum að fara að borða og röltum því út á Caribbian og fengum okkur kjúkling á teini aftur 🙂
Fengum okkur líka afmæliskokteil! Svona þar sem ég á nú einusinni afmæli í dag *haha* við röltum svo eitthvað eftir göngugötunni og létum tímann líða, fengum okkur henna tattoo á ökklana, bara svona for the hell of it… vorum reyndar báðar að spá í að fá okkur lokka í vinstra eyrað, svona efst í brjóskið en þegar við fundum loksins stað til þess að láta gera þetta þá var hann bara svo hrikalega dýr að ég tímdi því ekki. Rúmlega 10 héldum við aftur upp á hótel til þess að skipta um föt og gera okkur tilbúnar. Við höfðum keypt okkur kampavínsflösku þegar við fórum út og ætluðum reyndar að skála þegar við komum út en það fór víst eitthvað forgörðum en þá bara um að gera að skála fyrir mér!!!
Þegar við komum niður þá var rútan rétt að renna í hlað 🙂
einhverjir höfðu sleppt sér alveg í verslun og því að allt í einu var ekki nóg pláss fyrir allar töskurnar í rútunni og þurftu sumar þeirra að vera á ganginum í rútunni… sérstakt!
Þegar við komum út á flugvöll var eitthvað klikk í innrituninni því að færibandið var bilað fyrir töskurnar og þurftum við þvi að bíða eftir því að það færi í gang en vorum samt búin að tékka okkur inn… þetta var nú meira ruglið!
Svo þegar við loksins komumst inn og upp í flugvél þá tók við um klst bið því að það hafði verið bókað í ranga flugvél eða rangar upplýsingar hjá þeim sem sáu um að bókað væri í vélina því að það var bókað í þónokkur sæti sem voru hreinlega ekki til !!! en betur fór en á horfðist og voru næg sæti handa fólkinu. Meiraðsegja var svo henntugt að við höfðum 3 sæti út af fyrir okkur 🙂
Merkilegt nokk þá var flugvélin ekki nema 30 mín of sein í lendingu þannig að Leifur minn þurfti ekki að bíða lengi eftir okkur.
Ferðin í heild sinni var mjög skemmtileg 🙂
takk Iðunn fyrir að upplifa þetta allt með mér 🙂