Ég er ferlega skrítin í kollinum þessa dagana, kannski þessvegna sem ég hef náð að loka mig svona af inn í runnum undanfarna daga og dundað mér við að tína ber… hefði kannski bara átt að asnast út í hraun og farið að tína ber þar, þá hefð ég algerlega verið ein og fengið að gleyma mér í lengri tíma.
Ég hef verið að hugsa alveg heilmikið um dauðann og tilganginn með lífinu. Hversvegna er fólk látið þjást alveg endalaust í lengri tíma, ekkert hægt að gera fyrir viðkomandi… ekki baun!
Þannig er mál með vexti að “frændi”* minn er veikur, mjög veikur. Í raun er bara verið að bíða eftir því að hann losni undan þeirri kvöl sem heltekur hann. Hann er búinn að liggja inni á spítala síðan í maí. Hann er enganvegin sami maðurinn að sjá.. hann er búinn að horast niður í ekki neitt og getur varla hreyft sig.
Merkilegt hvernig sjúkdómar geta breytt fólki. Sem betur fer þá er hann ekki búinn að breytast mikið andlega, hann er enn sami glettni karlinn þegar liggur vel á honum. Sem er því miður ekki nógu oft undanfarið.
Ég hálf skammast mín fyrir að hafa farið svona sjaldan í heimsókn til hans en ég á rosalega erfitt með að horfa upp á fólk svona lasið. Ég horfði upp á föðurömmu mína veslast svona upp og verða fangi í sínum eigin líkama, hún hafði enga stjórn á sér og gat ekkert gert. Ég meika ekki að horfa svona upp á fólk og finnst ömurlegt að mínar minningar byggist svona mikið á því að Amma hafi verið svona.
Krabbamein er furðulegur sjúkdómur. Kemur niður á ótrúlegustu stöðum… fólk veikist án fyrirboða. Afhverju er verið að rembast við að finna upp lyf við offitu, stinningarvanda og önnur álíka “mein” en ekkert gengur með þetta ?!?! ekkert vegna Krabba, HIV eða Alzheimers!? já ég veit, það er alveg þörf á þessum að finna út úr þessu líka EN samt… ég myndi vilja sjá lyf við þessu eða einhverjar lausnir… þetta eru hörmulegir sjúkdómar!
Ég vorkenni móðursystur minni, ég vorkenni börnunum þeirra og barnabörnum að horfa upp á eiginmann, föður og afa í þessum kvölum. Eins mikið og mig kvíður þeim degi sem símtalið berst um að hann sé farinn þá veit ég að það er blessun þegar að því kemur.
* með “frændi” þá á ég við að hann er giftur systur mömmu, hann er mjög náinn okkur þar sem hann er búinn að vera “heimilisköttur” hjá okkur eins og hann orðar það sjálfur. Gisti reglulega hjá okkur á “hótel” Birtingaholti (húsið heima).