Við fórum með vinnunni hans Leifs í árlega haustferð í gær.
Nú var haldið í Íshellinn í Langjökli með viðkomu við Hraunfossa og í picknick í Húsafelli.
Fyrirgefðu, tekið var fram að stoppið við Hraunfossa & Barnafoss væri túristastopp og skylda væri að taka 20myndir per myndavél sem væri með í för (jájá).
Ég smellti samt þessari af 😉
Stutt stopp við “varðeldinn” í Húsafelli þar sem fólk gæddi sér á samlokum, drykkjarföngum og kökum (og sumir ákváðu að tilvalið væri að endurnýta vegghillu sem búið var að setja á brennuna – sem logaði náttrúlega ekki í þar sem þetta var um miðjan dag!). Þaðan var svo haldið upp á Klaka með rútunni okkar en það nefnist bækistöðin fyrir neðan Langjökul þar sem fólk safnast saman áður en haldið er upp eftir með snjó”rútu”.
Við fórum inn með fyrsta Hnithópnum en alls var okkur skipt í 3 hópa. Leiðsögumaðurinn okkar lék á alls oddi og sýndi marga snilldar takta og var mjög fróður um bæði hellinn, hellagerðina og Jökulinn sjálfan. Öll vorum við kappklædd eins og fyrirmælin kváðu á um en mér fannst alveg merkilegt að sjá kappann húfulausann allan tímann! Þó hitastigið segði að inni væri aðeins 0°c þá var samt eitthvað svo kalt þarna að ég hefði ekki viljað vera húfulaus þótt vettlingarnir hefðu fokið eftir smá stund 😉
Við gengum “vinstri hringinn” eftir göngunum og stoppuðum í öllum “herbergjum” og þess á milli þar sem hann benti okkur á margar merkilegar staðreyndir eins og t.d. hvernig sjá má á rákum í veggjunum eldgos síðustu ára.
Þegar við vorum komin að kapellunni sem er eiginlega innst inni í göngunum, ákvað leiðsögumaðurinn að sýna okkur hversu magnað hljóðið er þar inni eins og sjá og heyra má í videoinu sem er hér að neðan.
Við gengum áfram og komum að stað sem kallaður var útsýnisglugginn en þar mátti horfa upp og inn eftir jökulsprungu sem var stórfengleg sjón. Aðeins lengra komum við að brú yfir sprunguna og þar horfðum við inn eftir henni sem var enn stórfenglegra ef það er hægt!
Jökullinn er magnað fyrirbæri.
Við enduðum gönguna á því að stoppa örlítið í miðjunni þar sem ýmsar spurningar dundu á leiðsögumanninum (eins og hann hafi ekki fengið nóg af þeim áður 😉 )
Eitthvað fleira er af myndum hér – bæði teknar á símann minn (Samsung Galaxy S5 neo) & Canon EOS Xti vélina okkar.
Eftir stórfenglega upplifun færðum við okkur aftur niður í Húsafell þar sem við fengum ljúffengan kvöldverð á Hótel Húsafelli og héldum svo aftur í borgina 😉