Uppfull af orku eftir berjamó tókum við skyndiákvörðun og skelltum okkur í göngu upp á Mosfellið.
Vorum með burðarpokann hennar Sigurborgar í skottinu þannig að það var ekkert sem gat stoppað okkur.
Við fórum upp eftir skiltum sem merktu að það væru 1.7km upp á topp. Enduðum reyndar á að að labba hálfgerðan hring og ég var guðs lifandi fegin því að Leifur var með Sigurborgu á bakinu en ekki ég þar sem stikurnar leiddu okkur niður hálfgerðar ógöngur… amk mæli ég ekki með þeirri leið niður… etv allt í lagi að labba upp.
Við vorum í hálfgerðum erfiðleikum með að ná krökkunum upp því þau voru stöðugt að stoppa við berjalyng. Þarna leyndust nefnilega stór og falleg krækiber. Á niðurleiðinni fundum við reyndar líka helling af Hrútaberjum, algert sælgæti þarna á ferð.
Hressandi ferð og fullkomin lengd fyrir okkur (rétt um 2 klst með öllum berjastoppunum).