Oliver ákvað snemma í vor að við myndum fara í álíka hjólatúr í ár og í fyrra. Núna kæmi Ása Júlía með okkur 😉 og hann yrði líka lengri þar sem við myndum byrja heima í Kambaselinu en ekki við eitthvað verkstæði í Dugguvoginum.
Þar sem Leifur var búin að fá Stálmenn í framkvæmdir heima var dagurinn í dag kjörinn til þess að halda af stað á hjólunum okkar. Þeir voru mættir upp úr 8 en við lögðum af stað upp úr kl 9.
Fyrst þurfti að bæta lofti í dekkin hjá mér þannig að förinni var haldið að Shell til að setja loft í dekkin. Þá var næsta skref að finna hvaða leið við vildum fara eða bara hvert við vildum fara 😉
Úr varð að við fórum í gegnum trjállundinn milli Bakkanna og Fellahverfisins og þaðan niður í Elliðárdal þar sem krakkarnir stóðust ekki að dást að litlu krúttlegu kanínunungunum sem voru þarna út um allt. Við héldum áfram út á Geirsnef og yfir Reykjanesbrautina upp á Suðurlandsbraut þar sem Ásu langaði að stoppa rétt hjá Mörkinni og fá sér smá næringu.
Áfram héldum við inn í Laugardalinn þar sem krakkarir vildu endilega stoppa aftur og bregða aðeins á leik 😉 ekki málið, við vorum ekki á neinni hraðferð 😉
Við lékum okkur í smá tíma á sömu stöngum og um páskana 😉 sem var reyndar ástæðan fyrir því að þessi staður varð fyrir valinu. Þau mundu eftir þessum stöngum!
Sigurborg var mjög sátt við að sleppa við stólinn í svolítinn tíma en hún var búin að vera mjög dugleg að sitja kyrr og hvetja mig áfram á hjólinu. Hún vill nefnilega hellst af öllu fara HRATT!.
Ása Júlía var komin í Yoga ham þarna og fannst þetta æði!
Áfram héldum við svo í gegnum Laugardalinn, í gegnum tjaldstæðið og út á Laugalæk. Þar heilluðu krakkarnir nokkrar eldri konur með kurteisi og dugnaði þar sem þau hægðu vel á sér og pössuðu sig á því að vera alveg á sínum helming gangstéttarinnar…
Við hjóluðum svo eftir fína stígnum á Sæbrautinni alla leið að Hörpu þar sem næsta stopp var. Krakkarnir kíktu inn í Hörpuna og fundu sér WC en við Sigurborg Ásta pössuðum upp á hjólin og farangurinn okkar.
Við hjóluðum þvínæst út á Granda þar sem krakkarnir fengu verðlaun fyrir dugnað (og EKKERT kvart). Við stoppuðum nefnilega í Valdísi þar sem allir völdu sér ís við mikinn fögnuð gormanna minna.
Þegar ísinn var kominn í 4 mallakúta fengum við þær fréttir að Stálmennirnir væru búnir! og að Leifur ætlaði að hjóla til okkar og hitta hjá Ma&pa 😉
Heildarferð fyrrihlutans var rétt rúmir 17km! reyndar tók þetta okkur góða 2 tíma á ferð en rauntími var rúmlega 3tímar með stoppum 😉 Ég er að springa úr stolti á grislingunnum mínum.
Við eyddum góðum dagsparti á Framnesveginum – í hvíld! Leifur kom til okkar og eftir smá hvíld fyrir hann héldum við af stað til baka.
Olli vildi fara fyrir nesið eins og í fyrra en það var búið að kólna þónokkuð síðan í morgun þannig að við hjóluðum bara út að Eiðistorgi og svo eftir Ægissíðunni að göngustígnum meðfram Skerjafirðinum og eftir honum að Nauthólsvík þar sem við stoppuðum aðeins og hvíldum okkur á hjólunum.
Ákváðum svo að koma okkur heim og fórum í gegnum Fossvoginn, yfir göngubrúnna yfir Reykjanesbraut, meðfram Álfabakka og upp göngustígana meðfram Breiðholtsbrautinni og heim.
Þessi seinni rúntur var 14.6km þannig að krakkarnir hjóluðu í heildina 31.8km í dag! ÖFLUG!