Eftir methraða í þrifum og frágangi kvöddum við bústaðinn rétt fyrir hádegið í dag og héldum af stað heim… planið er samt ekki að fara alveg beinustuleiðina heim heldur ætlum við að skella okkur Norðurleiðina, stoppa á nokkrum “túristastöðum” og gista á Sigló hjá Magga & Elsu í nótt áður en við höldum áfram til Reykjavíkur.
Fyrsta stopp var Dettifoss eftir að hafa keyrt eftir hræðilegum vegi í heila eilífð að mati krakkanna. Tókum eftir því hvað sumir að samferðamönnum okkar fóru um þarna alveg löturhægt sem er svosem ekkert skrítið miðað við þvottabrettamalarveg!
En Mikilfenglegur er hann – ekki spurning! Við tókum líka smá vinkil á þetta og fórum í smá Geocache leit þar sem við vorum “réttu megin” fyrir það við fossinn – skráðum okkur auðvitað í bókina góðu sem geymd er í hylkinu og skoðuðum dýrgripina sem þarna leyndust.
Ása Júlía tók sig líka til og tók upp snapchat kveðju til Kalla frænda sem er afmælisbarn dagsins!
Frá Dettifossi héldum við áfram að Ásbyrgi þar sem við fengum okkur góðan göngutúr ásamt þess að fara í smá picknick 🙂
Krakkarnir fundu lítinn andarunga á sundi í Botnstjörn og höfðu mjög gaman af því að fylgjast með honum synda um og hlupu fram og til baka eftir pallinum, stelpurnar reyndu meira að segja að sjá hann í gegnum rifurnar á pallinum. Bara krúttlegt að fylgjast með þessum aðförum hjá þeim.
Ásbyrgi er alltaf jafn fallegur staður að koma á, friðsælt og með endalaust af möguleikum.
Við skemmtum okkur amk mjög vel við að rölta eftir hinum ýmsu stígum og sjá hvert þeir beindu okkur.
Á gamla tjaldstæðinu innst inni í Ásbyrgi fundum við okkur svo borð og bekki þar sem við fengum okkur smá nesti. Stoppuðum ekki lengi þar sem það var frekar napurt úti (þó það væri mjög fínt að vera á ferð, þá varð kalt um leið og maður settist niður).
Frá Ásbyrgi lá leiðin í gegnum Húsavík og á Akureyri þar sem við stoppuðum og fengum okkur kvöldmat á Greifanum. Brunuðum svo í gegnum Dalvík og Ólafsfjörð á leið okkar á Siglufjörð þar sem við hittum Magga, Elsu & krakkana 🙂