Við skelltum okkur í smá rölt um nágrenni bústaðsins og krakkarnir voru alveg á því að það væri hellingur af berjum þarna – jújú þau fundu nokkur sem voru orðin blá/svört en þau hefðu mátt verða aðeins þroskaðri til þess að verða sætari og safaríkari.
Það er eitthvað við umhverfið þarna sem er heillandi, stutt niður að vatninu, nóg af gróðri, leikvellir í nágrenni við flesta bústaði, rúmgóðir bústaðir (þó mætti eldhúsið vera stærra og með eldavél & ofni en ekki bara 2 hellum ;-)) – einstaka rollur sem kíkja í heimsókn líka, bara flott! og svo tekur ekki nema 10-15 mín að rúlla niðrá Egilsstaði í bónus/nettó!
Sem var eitt af því sem við gerðum í dag eftir að hafa keyrt á Seyðisfjörð og skoðað okkur aðeins um þar… stefnan var svo tekin á Stöðvarfjörð með viðkomu í Breiðdalsvík. Þegar við vorum á leið meðfram Kambanesinu keyrðum við fram á þennan myndarlega Tarf í vegkanntinum, jæja ok ekki alveg í vegkanntinum en hann var ekkert rosalega langt frá veginum, samt það langt frá að við þurftum að nota zoom linsuna okkar á stóru vélinni til þess að ná honum almennilega. Við stoppuðum þarna í góðan tíma til að fylgjast með honum og dást að tignarleikanum á meðan hann bara naut þess að japla á grasinu og skildi ekkert í því hversvegna bílar væru að stoppa þarna í nágrenninu 😉
Fallegur var hann.
Á Stöðvarfirði kíktum við í heimsókn á safnið hennar Petru steinasafnara – þvílík vinna sem konan hefur lagt í og allir þessir fallegu steinar! Náttúran er stórkostleg!
Krakkarnir voru alveg heilluð af steinunum og skoðuðu þá alveg í bak og fyrir. Þegar við vorum í heimsókn hjá Hniturunum þá hafði Ófeigur sýnt þeim nokkra lófastóra Geislasteina sem höfðu komið úr göngunum og leirstein sem hann lék sér að því að leysa upp í vatni þar sem hann gjörsamlega hvarf – við miklar vinsældir hjá Ásu & Olla.
Það er í raun full vægt til orða tekið að segja að steinarnir hafi yfirtekið heimili Petru því að það eru steinar ALLSTAÐAR og ÚTUM ALLT í öllum herbergjum hússins og um allan garðinn líka. Heilmikil vinna hefur farið í að setja upp hillur og “bekki” fyrir steinana og inni eru þeir allir flokkaðir og raðaðir eftir tegundum.
Ása Júlía kenndi Sigurborgu Ástu hvað Hrafntinna héti og voru þær systur alveg heillaðar af Hrafntinnum – Sigurborg Ásta tilkynnti mér í hvert sinn sem hún sá svartan glansandi stein að þetta væri sko Hrafntinna! og það sem eftir var ferðarinnar spurði Ása Júlía í hvert sinn sem við sáum svart glansandi berg hvort þar væri á ferðinni Hrafntinna (nei þetta var bara sólarglampi á vatni sem seytlaði yfir bergið ;-))
Þegar við vorum nýbúin að borga okkur inn á safnið stoppaði bíll við innganginn og út stökk kona og kallaði “Dagný!” – maður hittir ótrúlegasta fólk á ótrúlegustu stöðum 🙂 þarna var á ferðinni Unnur sem var með mér í bumbu/mömmuhóp þegar ég var ófrísk af Olla og höfum við haldist nokkurnvegin í hendur með barneignir eftir það og svo var líka rétt um mánuður á milli þess sem við giftum okkur 😉 og eins og það væri ekki nóg þá er maðurinn hennar frændi Elsu hans Magga vinar Leifs þannig að við hittumst reglulega.
Krakkarnir eru búin að vera að koma sér upp sínu eigin steinasafni með allskonar steinum sem þau fundu “út í móa” eftir Eskifjarðarheimsóknina og eftir að hafa verið á safninu hennar Petru tvíefldust þau og komum við eflaust heim með nokkur kg af steinum með þessu áframhaldi.
Þau eru samt ekki alveg sammála um hvað “flottur steinn” sé og þörf á að fara aðeins yfir hrúguna áður en haldið er áfram 🙂
Við ákváðum að skella okkur í sund á Egilsstöðum áður en við fórum heim. Sundlaugin þar er einnig með rennibraut sem krakkarnir nýttu sér óspart og fóru margar ferðir – vaðlaugin er einnig flott og á fullkomnum stað fyrir foreldra hangs og fylgjast með rennibrautinni 😉 Laugin við rennibrautina var líka fín og ekkert mál að hangsa þar og bíða eftir Sigurborgu koma niður annað en á Eskifirði 😉