Ása Júlía sat fyrir á nokkrum myndum fyrir Evu Mjöll og vinkonur hennar í nýju prjónabókinni “Leikskólaföt”
Þegar við mæðgur vorum búnar að fletta bókinni í útgáfuhófinu í Litlu Prjónabúðinni var Ása Júlía alveg ákveðin í að ég ætti að prjóna húfu eins og hún var með í bókinni (var reyndar með 2 eins, sitt hvor liturinn & sitt hvor garntegundin).
Úr varð að ég kíkti í Hafnarfjörðinn til hennar Drífu og valdi þar ljósbleikan lit í garninu Fjara sem Handprjón lætur spinna fyrir sig.
Ég kláraði að prjóna hana í gærkvöldi, gekk frá endum og skolaði úr henni í framhaldi af því. Einfalt og fallegt munstur sem er nokkuð fljótprjónað þegar maður kemst upp á lagið með það 🙂
Það var því gráupplagt að nýta bíltúr fjölskyldunnar í góða veðrinu í dag til að smella nokkrum myndum af dömunni með nýju húfna sína 🙂