Við fórum til Rómar með vinnunni hans Leifs í árshátíðarferð 21- 25.apríl – dásamlegir dagar 🙂
Hér er ca ferðasagan okkar skrifuð að mestu af Leifi en með smá viðbótum og svona frá Dagnýju 🙂
20160421 – fim – árshátíðarferð Hnits til Rómar: Dagur 1
Við vöknuðum kl 0430. Óli Ágúst og Hólmfríður sóttu okkur heim kl 0500 og óku á flugvöllinn. Fengum okkur morgunmat í flugstöðinni ásamt Óla og frú og hittum ferðafélagana.
Vorum nokkuð fljót að fá töskurnar á flugvellinum í Róm. Hvorugt okkar hafði komið þangað áður. Rúta á vegum ferðaskrifstofunnar Vita flutti okkur á Hótel TwentyOne við Via Cola di Rienzo og Via Lucrezio Caro. Skráðum okkur inn og fluttum töskurnar upp. Fórum svo beint út með Jóni Þór, Anitu, Hallvarði og Söru Rós. Við gegum út að Piazza del Popolo þar sem við lentum í ágengum blómasala sem gaf Söru rós sem hann ætlaðist svo til að Hallvarður greiddi. Fórum svo niður Via del Corso. Við furðuðum okkur svolítið á aksturslaginu og hvernig þeir leggja. Þeir aka þar sem þeir komast og leggja þar sem er pláss.
Vorum öll svöng og leituðum að stað til að borða. Fórum á pizzeriu, Vicolo R.IV del Grottino, við San Carlo al Corso kirkjuna og H&M þar sem við fengum okkur pizzu með sterku salami en flest hinna með parmaskinku. Snæddum úti. Lentum í leiðinlegum afríkubúa sem hlóð allskonar drasli á borðin sem hann sagði gjafir en heimtaði síðar greiðslu fyrir og bar upp svakalega sorgarsögu um að hann ætti nýfætt barn heima í einhverju Afríkulandinu og væri sko á leiðinni heim til þeirra á morgun. Við vorum svo leiðinleg að við skiluðum draslinu hans.
Eftir matinn héldum við áfram á Corso og upp Via Frattina og að Spagna-torgi með Spænsku tröppunum. Það var reyndar verið að gera við þær. Einhverra hluta vegna voru þar hermenn með mundaðar vélbyssur. Færðum okkur svo að alltof alltof troðnum Trevi-gosbrunninum. Þaðan gengum við eftir þröngri götu um Piazza di Pietra að Piazza della Rotunda framan við Pantheon án þess að fara inn. Borðuðum á litlum ristorante hægra megin og aftan við Pantheon. Strákarnir fengu sér þar fyrsta skammtinn af Spaggetti alla carbonara.
Svo var ákveðið að halda heim á hótel eftir langan ferðadag. Á heimleiðinni gengum við fram á yfibyggðar rúsir af elsta múrsteina-íþróttavelli sem fundist hefur eftir Rómverja – Stadio di Domiziano.
Gengum vestur Via dei Coronari að ísbúð sem mælt hafði verið við við Halla sem heitir Gelataria del Teatro. Vorum sko ekki svikin og áttum eftir að heimsækja þessa nokkrum sinnum áður en Róm var yfirgefin. Þarna smakkaði Dagný ís með ferskri mintu & súkkulaði (erum að tala um að mintublöðin voru söxuð sérstaklega í ísinn, ekkert essens bull).
Stoppuðum við Englabrúnna til að dást að útsýninu niður fljótið en fljótlega tókum við eftir stórum Rottum. Leifur og Jón Þór gengum niður að Tiber til að skoða þær, en þetta var ca 2 hæðir niður og hinum fannst þær nú nógu stórar að sjá af brúnni…
Gengum svo yfir Englabrúna og að Péturstorginu og til baka að Englakastalanum upp á Via Tacito og á hótelið. Sáum smokkasjálfsala úti á götu í innan við kílómeters fjarlægð frá Vatikaninu! Hann seldi þó reyndar ýmislegt annað en smokka eins og t.d. bleyjur, rakvélar, sleipiefni og dömubindi.
Fórum þreytt að sofa eftir langan dag.
20160422 – föst – árshátíðarferð Hnits til Rómar: Dagur 2 – Vatikanið
Við fórum niður í morgunmat uppúr kl. 8 en við áttum að vera mætt í rútu kl. 10 til að fara í skoðunarferð um Vatikanið.
Þar sem við vorum með fyrirframpantaða hópferð þá fórum við í stuttu röðina inn í Vatikansöfnin norð-austan við Vatikanið. Horfðum yfir Péturskirkjuna og svo í sveig um safnabyggingarnar þar sem hápunktarnir voru verk Rafaels og Michalangelos sem langflest voru ýmist máluð beint á múrinn eða eða lögð í mosaic. Eitthvað var einnig málað á striga sem svo var saumað í. Skoðuðum ennig mosaicverk í gólfinu og stórar marmaraskálar eða baðkör og fullt af styttum. Skoðuðum kortaherbergið og Sistínsku kapelluna.
Okkur var ýtt um þrengslin í Sistínsku kapellunni af vörðum sem öskruðu „silence-respecto“ reglulega. Leifur skoðaði mest gaflmynd Michalangelos af dómsdegi og verk hans í miðmu loftinu af sköpun hemsins. Fararstjórinn hafði útskýrt verkin fyrir okkur áður en við fórum inn en það var bannað að tala inni í kapellunni. Leifur leitaði að eldstæðinu fyrir hvíta reykinn en það var líklega á bak við tréhlera á hinum gaflinum. Vorum leidd niður í grafhvelfingu Páfanna. Strunsuðum fram hjá því sem hlýtur að vera „gröf Péturs“ eða a.m.k. neðsta göfin sem þeir fundu í kirkjugarðinum. Sáum þaðan upp í Péturskirkjuna gegnum smá raufar á gólfinu. Fórum svo upp í kirkjuna. Skoðuðum altari eða hásæti páfans sem er allt of stór bronsklumpur eftir Bernini, nokkur málverk eftir snillingana og íslenska páfaminnnismerkið eftir Bertel Thorvaldsen. Skoðuðum gröf Jóhannesar Páls II sem er uppi í kirkjunni í sérstakri kapellu. Enduðum á styttunni Móðurást (e.Pieta) eftir Michaelangelo sem er geymd inni í skotheldu glerbúri eftir að veikur maður réðst að henni og hjó til hennar og skemmdi á nokkrum stöðum.
Skoðunarferðinni lauk um kl 14 þegar við gengum út á Péturstorgið.
Fórum í nokkuð stórum hópi, eða 12 manns yfir Englabrúnna og á Osteria del‘Antiquario á Piazzetta di San Simone, þar sem Dagný fékk sér pasta með geitaosti og svörtum pipar en Leifur spagetti með beikoni, sólþurrkuðum tómötum og geitaosti. Við sátum við þrjú fjögurra manna borð, inni.
Við fórum svo aftur á Gelateria del Teatro þar rétt við til að fá dessert. Gengum að Piazza di Tor Sanguigna og þaðan upp að Tiber. Gengum meðfram henni á vinsti bakka þar til við urðum þreytt á umferðinni og færðum okkur aftur inn á Via del Corso eftir Via Tomacelli. Popolo og heim á hótel. Beint í sturtu og í sparigallann.
Mættum niður á hótelbarinn í fordrykk kl. 19. Leifur gerði nokkrar tilraunir til að panta kokteil sem voru svo ekki til. Endaði á að pantaði það sama og Runólfur sem á víst að vera það vinsælasta á þessum slóðum sem heitir Spritzer og er með Campari, kampavíni og gosvatni en Dagný fékk sér Pina Colada.
Hótelið átti að sjá um bílamálin af hótelinu yfir á veitingastaðinn að beiðni Kristínar, það varð hálfgerður brandari, okkur skilst að þeir sem komu hafi verið ólöglegir leigubílar en mikið var um veggjakrot með stenslum um að Svartir leigubílar væru ólöglegir og fólk hvatt til að nota þá ekki. Fyrstu tveir fluttu um þriðjung hópsins en svo leið hálftími. Við tókum bíl þá en hluti hópsins þurfti að bíða enn lengur. Komum því of seint á árhátíðina. Hún var haldin á stað sem hét Corte del Grillo og er staðsettur rétt austan ritvélarinnar. Maturinn var af ýmsum toga og jafnframt mjög svo misgóður 😉
ANTIPASTO/Forréttir
- Carpaccio di manzo con rucola e scaglie di parmiggiano /Carpaccio með rucola og grana (ostur)
- Mozzarella di Bufala e Prosciutto crudo/ Buffólo mozarella ostur með ítalskri skinku
- Carciofo alla Romana / ætiþistlar að hætti rómverja
PRIMO PIATTO
- Mezze maniche al tartufo / pasta með trufflum
SECONDO PIATTO
- Saltimbocca alla Romana con patate al forno / kálfakjöt að hætti rómverja
DESSERT
- Tiramisù “Corte del Grillo”
Eftir mjög svo góðan mat var kominn tími til að halda heim á leið… eins og okkur er lagið sáum við ekki tilgang með leigubíl til baka heldur gengum við í hóp að ritvélinni og vestur Via delle Botteghe Oscure og uppá Corso Vittoro Emanuele II. Gengum fram á rústirnar þar sem Cesar var veginn án þess að átta okkur á því þá. Skoðuðum þær þó ofan af götu í myrkrinu því við sáum að þetta var eitthvað merkilegt. Gengum eftir Piazza Navon (í fyrsta skipti), yfir Englabrúna og eftir Via Lucrezio Caro (í hlandlykt) heim á hótel.
Fórum að sofa enn þreyttari en í gær en vorum ekki drukkin efir árshátíðina.
Áður en við héldum af stað í kvöldverðin fékk Dagný hörmulegar fréttir að heiman af Ríkharði frænda sínum sem hafði látist nóttina áður á ferðalagi með fjölskyldu sinni á Bahamas. Hringdum heim til þess að fá staðfestingu á fréttunum. Dagný náði sem betur fer að hrissta þetta af sér og njóta kvöldsins með hinum.
20160423 – lau – árshátíðarferð Hnits til Rómar: Dagur 3 – Fora Romana & Coloseo
Við vöknuðum og fórum niður í mat um 9. Rúta frá Vita sótti okkur kl. 11 til að fara í Coluseum.
Rútan fór einhverja heljarinnar króka um alla borg og tók rúman klukkutíma að komast að Coluseum. Þá vorum við búin að missa tímann okkar og beint á að fara fyrst í Forum. Gengum
þar niður eftir helga veginum og til baka. Vorum aðeins um klukkutíma þar og frekar hratt farið yfir. Fórum svo inn í Colusseum, beint upp á aðra hæð þar sem við gengum rúman hálfhring. Vorum svo leidd niður á neðri hæðina og beint út. Við stálust samt til að skoða smá. Þau sem fóru á eigin vegum (Jón Þór & Aníta, Hallvarður & Sara, Guðrún Edda & Justin) náðu að skoða meira á lengri tíma. Vorum búin kl. 15 eftir þriggja tíma skoðunarferð.
Við röltum svo með Halldóri og Bryndísi upp götuna sem Mussolini lagði þvert yfir rústirnar. Gengum í sveig norður og svo vestur að ritvél og Feneyjatorgi og þaðan norður eftir Corso þar sem við hittum Harald og frú. Hann var sannfærður um að hann væri að fara í þveröfuga átt og væri sunnan við rivélina. Við fylgdum þeim að Pantheon og reyndum að komast inn. Klukkan var hins vegar akkúrat 17 og þá átti að hefjast messa svo við gátum aðeins kíkt inn. Kvöddum Harald og frú en fórum á kaffihús á Rotunda með hressum þjóni. Við sáum sleikipinna með páfanum á sem okkur fannst fyndið. Við gengum norður eftir öngstrætum upp á Via dei Condotti austur og til baka eftir Via Mario de‘ Flori. Þá fór að hellirigna. Við höfðum keypt regnhlífar í Tiger um morguninn fyrir ferðina sem komu nú í góðar þarfir. Duttum inn á nokkra bari til að hvíla okkur á rigningunni, fara á klósett og fá meiri bjór. Gengum að Trevi sem Dóri og Bryndís voru ekki búin að sjá, vestur Crociferi og Sabini að Corso. Gengum svo vestur Via dei Prefetti, upp á Piaa Nicosa. Þá vorum við orðin svöng og ákváðum að fara í hverfið suðvestan við Navona. Gengum suður Navona, yfir Vittor Emanuele II aðeins inn Via del Pellegriono og svo inn á Campo de Flori þar sem við fundum loks stað til að borða á. Enn var rigning. Við sátum engu að síður úti undir fortjaldi með gaseldsúlum sem héldu á okkur hita. Leifur og Dóri fengu sér dýrindis nautasteik (að þeirra mati), Dagný fékk sér Lasagna og Bryndís kjúklingabringur. Við gengum svo til baka eftir Piazza Navona en gleymdum að beygja til vinstri að San Simone svo við fórum að hæstaréttar-brúnni en ekki Englabrúnni eins og við höfðum ætlað okkur þar sem við vorum búin að ákveða að fá okkur desert í Ísbúðinni hans Halla en vorum of þreytt til að nenna leita að henni. Fórum því beint á hótelið. Mikið var búið að tala um “barinn á þakinu” af samferðafólkinu og ætluðum við að kíkja þar inn en það var búið að loka honum.
20160424 – sun – Róm – Pantheon – Villa Borghese
Við hittum Jón Þór, Anitu, Hallvarð og Söru í morgunmatnum. Gengum með þeim af Hotel TwentyOne á Via Cola di Rienzo austur að Tiber. Gengum alveg niður að ánni á hægri bakkanum og fórum svo yfir hjá hæstarétti og að Pantheon. Enn einu sinni var messa akkúrat í gangi. Við fórum á kaffihús á Piazza della Rotunda. Fórum svo inn í Pantheon. Það var engin röð, bara smá þvaga í dyrunum. Skoðuðum hátt á lágt. Skoðuðum grafir Vittor Emanuel II og Rafaels. Gengum suður og svo að Fontana del Facchino og svo upp á Piazza del’Oratorio og eftir Via della Dataria meðfram forsetahöllinni og garðinum sem Napoleon lét gera í stað kirkju sem honum þótti ljót og skyggði á útsýnið hans!
Skoðuðum Incrocia della Quattro Fontane þar sem eru fjórir gosbrunnar, hver á sínu horni götunnar. Gengum eftir Via Sistina niður á Berbini-torg sem er óspennandi. Halli fór inn í minjagripaverslun þar sem hann sjá rómverksan hjálm úr ryðfríu stáli. Ég hvatti hann til að kaupa hann sem hann gerði. Gengum um Spagna fyrir ofan spænsku tröppunar sem voru lokaðar að mestu og inn í Villa Borghese-garðinn. Nutum útsýnisins yfir borgina og gengum aðeins inn í garðinn, yfir Via del Muro Torto eftir Viale Tarragona niður að lítilli tjörn. Settumst þar niður í grasið og á bekk.
Gengum niður Viale Florello La Guardia og inn um borgarmúarana bakdyramegin á Piazza del Popolo. Þar sannfærði ég Halla um að hann yrði að pósa með rómverksa hjálminn sinn við eitthvað rómverskt. Ég tók nokkrar myndir af honum. Svo ákáðum við að við yrðum að senda hann inn í þvöguna til að fá “hvar er Halli” mynd. Þá hópuðust að honum ítalskir unglingar sem tóku myndir af sér með honum.
Dagný, Anita og Sara fóru í H&M á Via del Corso á meðan fóru Leifur, Jón Þór og Hallvarður upp á hótel að sækja jakka og losna við hjálminn. Leifur gleymdi reyndar jakkanum! Þeir hittu svo stelpurnar á Corso en þær voru bara nýbyrjaðar að versla. Við mættum mótmæla”göngu” eða hjólatúr 5-stjörnu hreyfingarinnar sem er vinstrisinnaður populistaflokkur á móti ESB og heimsvæðingu.
Strákarnir fóru aftur á fyrsta barinn þar sem við fengum okkur bjóra til þess að afbera búðarferð með stelpunum enda eyddum við öll góðum tíma í H&M. Skildum við krakkana þar sem þau ákváðu að fara í nokkrar aðrar búðir sem við vorum ekki spennt fyrir. Við fórum aftur á hótelið til að losa okkur við pokana. Atli Braga tók mynd af Leifi með alla pokana þar sem þeim fannst þetta svo mikið magn (það er svona að fara bara 1x í stað 2-3x á dag eins og sumir aðrir gerðu).
Fórum með sama hóp og áður aðeins suður fyrir hótelið á steikhús sem Halli fann á netinu sem heitir Vitos við Via Muzio Clementi. Þetta var einnig hálfgerður sportbar en þjónustan og maturinn mjög góður. Þeim tókst samt á einhvernhátt að klúðra hluta af pöntuninni okkar en þeim fannst það svo leiðinlegt að við fengum góðan afslátt. Enduðum á dessert. Heim á hótel að pakka.
20160425 – mán – heimferð frá Róm
Kláruðum að pakka og borðuðum morgunmat á hótelinu. Fórum með sama hóp og í gær upp að Vatikaninu þar sem við leituðum að staupi með mynd af Páfanum á en fundum ekki. Keyptum eitthvað hefðbundnara staup. Horfðum á pilagrima í röð en gengum svo þrautagöngu upp í einhverjar hæðir vestan við ánna. Þar er ekkert nema villur og háir múrar. Gengum upp Via della Fornaci. Drukkum kaffi við sigurboga á toppnum.Fórum niður Passeggiata del Gianicolo að Piazza Giusepppe Garibaldi niður í Trastevere hverfið. Gengum Via Garibaldi.
Leifur, Hallvarður og Sara skoðuðu S Maria della Scala kirkjuna að innan. Fórum á pizzeriu á Via del Moro þar sem við fengum okkur aftur pizzu í ferðinni, þannig að fyrsta og síðasta máltíðin voru pizzur. Gengum svo upp á Campo de Flori á markað, upp Navona og inn á Piazza de San Simone að fá okkur ís í þriðja skipti. Dagný gat ekki valið á milli þeirra tegunda sem hún hafði þegar smakkað (Salvía og Hindber vs Minta og súkkulaði) að hún fékk sér eina kúlu af hvoru.. Fórum upp yfir ánna framan við Hæstarrétt og gengum framhjá þeirri leiðindabyggingu enn einu sinni þvert yfir Piazza Cavour og inn á hótel að sækja töskurnar. Vorum sótt af rútu á vegum Vita.
Leifur fékk sér smá ameríska pizzu eða pizzulíki með Óla og Hólmfríði á flugvellinum. Lentum aftur með þeim í sætaröð. Við áttum gangsætin en þau skiptu við okkur þar sem Óli er gangamaður. Leifur sat við gluggan framan af en það var of dimmt til að sjá neitt nema endalaus ljós svo við skiptum þar sem Dagnýju finnst þetta sæti best.Leifur byrjaði að skrifa ferðasöguna í fluginu og hætti ekki fyrr en í aðfluginu.
Óli og Hólmfríður keyrðu okkur heim. Það var rugl á hliðunum og tók lengri tíma að komast út af bílastæðinu en í gegnum fríhöfnina og sækja töskurnar. Vorum komin heim að verða tvö.
Sofnuðum dauðþreytt og hlökkuðum eiginlega ekkert til að vakna til vinnu….