Við skelltum okkur til Eyja með vinnunni minni á laugardaginn. Fengum vægt til orða tekið ÚRHELLIS rigningu og smá rok en frábærann gestgjafa 🙂
Við Leifur og Anna læknir vorum tekin upp í rútuna á Miklubrautinni og brunað var svo beinustu leið í Landeyjahöfn. Ferðin með Herjólfi var ágæt, svolítil alda, rigning og rok en gerir það nokkuð til? Við héldum okkur reyndar úti allan tímann 🙂
Á móti okkur tók Ágúst, sem var námslæknir hérna hjá okkur, hress og skemmtilegur karakter. Fórum um eyjuna og skoðuðum m.a. Pompei Norðursins eða það kalla Eyjamenn húsin sem búið er að grafa “upp” úr öskunni. Gengum upp á Eldfell í svaka roki og þoku en eins klassíkt og það er að þá létti þokunni þegar við vorum ca hálfnuð niður!! Ágúst leiðsögumaður hafði nefnilega dregið okkur áfram upp Eldfellið með vænri gulrót og hann sagði nefnilega að hann hefði rölt þarna upp kvöldið áður og skellt rúgbrauði niður *piff* hann var auðvitað bara að plata okkur!
Eftir Eldfellið voru flestir frekar kaldir og blautir þannig að við skelltum okkur inn á kaffihúsið Vinaminni og fengum okkur smá heitt í kroppinn… aka heitt kakó/kaffi/swissmokka/latte eða hvað sem fólk vildi. Þetta átti að heita frjáls tími þannig að fólk var frekar dreift á þessum tíma en ég er alveg með það á hreinu að ALLIR fengu sér eitthvað að drekka…. missterkt þó.
Eftir “frjálsa tímann” fórum við í rútuferð um eyjuna þar sem hann sýndi okkur nokkra sniðuga staði hér og þar á eyjunni. Stoppuðum líka í Herjólfsdal þar sem átti að hefjast brekkusöngur ennnnnnnnnnnn það var aðeins of mikil rigning sem datt niður úr skýjunum eftir að við vorum búin að leika okkur eilítið.
Eftir glæsilega útsýnisferð í þoku og móðuþöktum rúðum rútunnar héldum við heim til Ágústar þar sem hann bauð upp á frábæra Franska kjötsúpu, brauð, söng og gleði 🙂
Við fórum svo með Herjólfi til baka um 21 og vorum svo komin heim rétt um miðnætti.